Eintóm skynsemi

Þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög jarðbundin manneskja. Ég er vísindalega þenkjandi, vil að hluturnir séu skoðaðir af skynsemi og vil alltaf leita rökréttra skýringa.

Ég hef aldrei farið til spákonu og ég er ekki í þjóðkirkjunni. Það hefur vafalaust komið mörgum á óvart þegar ég fór að stunda jóga á fullu og fljótlega upp úr því að læra að verða jógakennari, þar sem jóga hefur í huga margra yfir sér dularfullan blæ. 

Jóga á uppruna sinn á Indlandi og á sér mjög langa sögu. Það hefur þróast samhliða indveskri menningu frá því löngu fyrir Krist. Jógað á sér heimspekilegar og trúarlegar rætur en í mínum huga er jóga jarðbundið, rökvisst og ótrúlega skynsamlegt. Það sameinar andlega og líkamlega þáttinn og tengir okkur við okkur sjálf. Hvað getur hugsanlega verið gáfulegra en það? 

Ég hef mikla trú á öllum mögulegum íþróttum og líkamsrækt og veit að það gerir fólki gott. Jóga hefur þó nokkra sérstöðu vegna þeirrar áherslu sem það leggur á að vera meðvitaður í allri hreyfingu og öndun. Hvernig það að iðka jóga hjálpar okkur við að kynnast sjálfum okkur, átta okkur á okkar veikleikum og styrkleikum og að öðlast sjálfsstjórn. Iðkunin snýst ekki um samkeppni og framfarir felast ekki í að geta teygt sig lengra eða ná að komast í erfiðar stöður. Framfarirnar felast miklu fremur í að ná auknum aga, að kyrra hugann, ná stjórn á öndun og þar með hreyfingum og líðan og að ná að leita betur inn á við. Og hvernig á eiginlega að keppa í því?

Sem sagt eintóm skynsemi!

Namastei